Nýjast á Local Suðurnes

Slit á samstarfi kom Njarðvíkingum á óvart – Efla tengsl annars- og meistaraflokks

Njarðvíkingar hafa verið duglegir við að gefa ungum leikmönnum tækifæri í meistaraflokki

Samstarfi Njarðvíkur og Keflavíkur í öðrum flokki í knattspyrnu, sem staðið hafði í þrjú ár, var slitið einhliða af Knattspyrnudeild Keflavíkur og kom Njarðvíkingum mjög á óvart, enda hafði samstarfið gengið vel, að þeirra mati.

Deildirnar sendu þrjú lið til keppni á Íslandsmótinu í sumar sem öll náðu góðum árangri, en tvö lið enduðu tímabilið sem sigurvegarar í sínum riðlum. Þá lék þriðja liðið til úrslita í bikarkeppni KSÍ, þar sem það tapaði naumlega. Sameinað lið vann Íslandsmeistaratitilinn árið 2015.

Samkvæmt heimildum Suðurnes.net tóku mun færri iðkendur frá knattspyrnudeild Njarðvíkur þátt í samstarfinu, en þrátt fyrir það greiddu Njarðvíkingar helming kostnaðar við samstarfið, auk þess að leggja til helming þess tíma sem sameinað lið hafði til afnota í Reykjaneshöll.

Þá herma heimildir Suðurnes.net að engin ástæða hafi verið gefin fyrir samstarfsslitunum af hálfu Keflvíkinga.

Njarðvíkingar munu halda úti öðrum flokki í vetur, þrátt fyrir fáa iðkendur, en knattspyrnudeildin hyggst efla tengsl 2. flokks og meistaraflokks. Það verður meðal annars gert með þeim hætti að nýráðnir þjálfarar meistarflokks, Rafn Markús Vilbergsson og Snorri Már Jónsson munu taka að sér þjálfun flokksins samhliða þjálfun meistaraflokks. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt er á heimasíðu félagsins.

ingvar jonsson fotbolti

Landsliðsmarkvörðurinn Ingvar Jónsson hóf ferilinn með Njarðvíkingum

Í tilkynningu Njarðvíkinga kemur einnig fram að allir þeir drengir, sem tilheyra þessum aldursflokki og áhuga hafa á að  taka þátt í þessu verkefni séu velkomnir á æfingar, en Njarðvíkingar hafa í gegnum tíðina verið duglegir við að gefa ungum leikmönnum tækifæri á að leika með meistaraflokki félagsins.

Alls hafa 28 leikmenn á aldrinum 15 til 18 ára leikið sinn fyrsta meistaraflokks leik með Njarðvíkingum á Íslandsmótum þá í B deild, C deild og D deild (nú 3. deild) á síðustu 18. árum eða frá 1998 til 2016.

Yngsti leikmaðurinn sem leikið hefur með liðinu frá upphafi er Óskar Örn Hauksson leikmaður KR í dag en hann var 15 ára og 14 daga gamall þegar hann lék með Njarðvík gegn Huginn/Hetti í leik um 3. sætið í 4. deild (3. núna) þann 5. september 1999. Næst yngsti er Ari Már Andrésson sem er leikmaður Njarðvíkinga í dag en hann var 15 ára, 10 mánaða og 11 daga gamall þegar hann kom inná gegn Völsungi í 2. deild þann 22. september 2012.

arnor ingvi

Arnór Ingvi Traustason landsliðsmaður í knattspyrnu æfði með yngri flokkum Njarðvíkur

Þess má einnig geta að fjöldi ungra leikmanna hafa fengið sinn fyrsta leik í Deildar- / Lengjubikarnum á þessum aldri líka. Þá er ótalið þeir leikmenn sem leikið hafa sína fyrstu leiki á aldrinum 18 til 20 ára.

Opnið skrána hér fyrir neðan og skoðið listann yfir leikmenn fyrstu-leikir-yngstu-leikmanna-1998-2016.