Nýjast á Local Suðurnes

Bjóða upp á ódýra bílastæðaþjónustu á Keflavíkurflugvelli – “Höfum fengið ótrúlegar viðtökur”

Nýtt fyrirtæki, BaseParking, býður ferðalöngum upp á ódýra bílastæðaþjónustu á Keflavíkurflugvelli. Fyrirtækið er stofnað af Suðurnesjamönnunum og frumkvöðlunum Ómari Þresti Hjaltasyni og Njáli Skarphéðinssyni, en saman hafa þeir félagar rekið skutlþjónustuna Keyrðu mig heim undanfarin ár.

Að sögn Ómars er auðvelt að nýta sér þjónustu þeirra félaga, ef geyma þarf bílinn á meðan á ferðalagi stendur, enda virkar þjónustan þannig að þeir sækja bílinn við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og skila honum á sama stað að ferðalagi loknu.

“Við sáum mikil tækifæri í að bæta þjónustu við flugstöðina og ákváðum að prófa þetta eftir erlendri mynd. Þjónustan virkar þannig að þú keyrir beint upp að Leifsstöð þar sem bílstjóri frá okkur tekur við bílnum og leggur honum á bílastæðið okkar sem er á Ásbrú. Svo þegar viðskiptavinurinn lendir þá afhendum við bílinn.” Segir Ómar Þröstur í spjalli við Suðurnes.net

Þá segir Ómar þá félaga vera lausnarmiðaða einstaklinga og að þessi þjónusta virðist henta ferðalöngum vel, enda hafi viðtökurnar verið góðar. Þá segir Ómar að þeir hafi frá upphafi ákveðið að stilla verðinu í hóf,

“Við erum báðir þekktir fyrir það að sjá lausnir í vandamálum og þessi þjónnusta er gott dæmi um það. Viðtökurnar eru búnar að vera ótrúlegar líka og erum komnir með yfir 100 pantanir og erum með rúmlega 60 bíla í geymslu á svæðinu okkar. Svo má bæta því við að við erum bara að rukka 500 kr. á sólarhring i geymslugjald.” Segir Ómar.

Hægt er að kynna sér þjónustu BaseParking nánar á vefsíðu fyrirtækisins, en auk bílastæðaþjónustunnar bjóða þeir félagar upp á ýmsa bílatengda þjónustu.