Nýjast á Local Suðurnes

Keflvíkingar lögðu Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni

Amin Stevens nýr leikmaður Keflvíkinga átti góðan leik og skoraði 33 stig þegar liðið heimsótti Njarðvíkinga í Ljónagryfjuna í kvöld. Bæði lið tefldu fram nýjum hávöxnum erlendum leikmönnum, sem komu vel út, í grannaslagnum, sem Keflvíkingar sigruðu 82-88 í kvöld.

Njarðvíkingar byrjuðu leikinn af krafti og leiddu mestan part fyrsta leikhluta en Keflvíkingar komust smátt og smátt í gang og tóku leikinn yfir í öðrum leikhluta. Staðan í leikhléi var 36-43 Keflvíkingum í vil.

Keflvíkingar höfðu góða stjórn á leiknum í síðari hálfleik og þó Njarðvíkingar hafi nokkrum sinnum komist nálægt því að jafna var eins og þeir næðu ekki að halda dampi þegar á reyndi.

Jackson skoraði 21 stig fyrir Njarðvík og Oddur Rúnar 16. Hjá Keflavík skoraði Stevens 33 stig og Hörður Axel 16.