Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjaliðin með sigra – Tvíframlengdur spennutryllir á Sauðárkróki

Grindavík og Keflavík fara vel af stað í úrslitakeppninni í Dominos-deildinni í körfuknattleik, Grindvíkingar lögðu Þór Þorlákshöfn að velli í Mustad-höllinni með 99 stigum gegn 85 og Keflvíkingar lögðu Tindastól á útivelli eftir tvær framlengingar með 110 stigum gegn 102.

Grindvíkingar hófu leikin af miklum krafti og náðu fljótt 14 stiga forskoti, sem Þórsarar náðu að saxa á í öðrum leikhluta. Staðan í leikhléi 43-35. Það var svipað upp á teningnum í síðari hálfleik, Grindvíkingar voru ávalt skrefinu á undan og héldu um og yfir 10 stiga forskoti út leikinn, sem endaði sem fyrr segir 99-85.

Lewis Clinch var stigahæstur heimamanna með 23 stig og Þorleifur Ólafsson skoraði 20.

Magnús Már Trautason átti stórleik fyrir Keflavík þegar liðið lagði Tindastól, en Magnús skoraði 33 stig í leiknum, auk þess að tryggja Keflvíkingum seinni framlenginguna með því að setja niður tvö vítaskot á lokasekúndum þeirrar fyrri.

Keflvíkingar voru sterkari í fyrri hálfleik, leiddu með fimm stigum eftir fyrsta leikhlutann, 20-15, og voru síðan sex stigum yfir í hálfleik, 42-36. Keflvíkingar misstu svo aðeins dampinn í þriðja leikhluta og náði Tindastóll forystunni á tímabili. Góður kafli Keflvíkinga í fjórða leikhlutanum skilaði þeim fínni forystu, þegar skammt var eftir, en Stólarnir náðu að jafna í lokin og spennandi var allsráðandi á lokasekúndunum sem og í báðum framlengingunum. Keflvíkingar voru hinsvegar öflugri og náði að landa dýrmætum útisigri.

Magnús Már Traustason skoraði 33 stig og Amin Stevens 25, en hann tók einnig 18 fráköst í leiknum.