Keflvíkingar bikarmeistarar í körfuknattleik
Keflavík lagði Skallagrím í bikarúrslitaleik kvenna, Maltbikarnum, í Laugardalshöllinni, 65-62. Þetta er í 14. sinn sem Keflavíkurstúlkur vinna bikarkeppnina.
Kefvíkingar hófu leikinn af miklum krafti með Ariana Moorer í fararbroddi, en hún skoraði fyrstu 13 stig Keflavíkurliðsins sem náði 13 stiga forskoti eftir um 6 mínútna leik. Skallagrímsstúlkur hrukku svo í gang undir lok fyrsta leikluta og náðu að minnka muninn í 8 stig, 22-14. Keflavíkurstúlkur héldu svo 6-8 stiga forskoti í öðrum leikluta, eða allt þar til í lokin að Skallagrímur náði að minnka muninn í þrjú stig, 37-34, sem var staðan í leikhléi.
Keflavíkurstúlkur náðu svo aftur að auka muninn í 8 stig um miðjan síðari hálfleik, en alltaf komu Skallagrímsstúlkur til baka og í lok þriðja leikhluta var munurinn sex stig, 52-46 og ljóst að lokaleikhlutinn yrði gríðarlega spennandi.
Jafnt var á öllum tölum í lokaleikhlutanum, og stemningin í Laugardalshöllini gríðarleg. þegar um 25 sekúndur lifðu leiks, í stöðunni 62-62 settu Keflvíkingar niður tvö vítaskot og Skallagrímur tók í kjölfarið skot sem geigaði. Keflvíkingar náðu frákastinu og skoruðu lokastigið af vítalínunni, 65-62 urðu því lokatölurnar í þessum æsispennandi úrslitaleik.
Ariana Moorer átti sannkallaðan stórleik fyrir Keflavík, en hún skoraði 26 stig, en Erna Hákonardóttir fyrirliði kom næst með 12 stig.