Nýjast á Local Suðurnes

Erfitt að umbuna lögreglu vel unnin störf – Hátt hlutfall yfirmanna á Suðurnesjum

Nær helmingur lögreglumanna á Suðurnesjum gegnir yfirmannsstöðu hjá embættinu, þetta er meðal annars vegna þess að erfitt er að umbuna lögreglumönnum vel unnin störf nema með stöðuhækkun. Þetta kemur fram í  Fréttablaðinu í dag.

Þá kemur fram í grein Fréttablaðsins að fyrir utan lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra séu fimm aðrar yfirmannsstöður innan lögreglunnar, þær eru: Yfirlögregluþjónn, aðstoðaryfirlögregluþjónn, aðalvarðstjóri, lögreglufulltrúi og varðstjóri. Á Suðurnesjum er einn yfirlögregluþjónn, þrír aðstoðaryfirlögregluþjónar, níu aðalvarðstjórar, sjö lögreglufulltrúar og 16 varðstjórar.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu segir við Fréttablaðið að erfitt sé að umbuna lögreglumönnum fyrir vel unnin störf nema með stöðuhækkun:

„Í núverandi launaumhverfi lögreglunnar er erfitt að umbuna lögreglumönnum fyrir vel unnin störf nema með stöðuhækkunum. Aukinn sveigjanleiki, til dæmis með meira fjármagni inn í stofnanasamninga, getur haft áhrif á hlutfall stjórnenda,“ Segir Sigríður.

Önnur ástæða mikils fjölda yfirmanna mun vera sú að um áramótin síðustu var lögregluumdæmum fækkað og þau sameinuð til hagræðingar og segir Sigríður að ekki megi taka stöður af fólki sem það er komið með.