Gefumst ekki upp þó á móti blási – Keflavík fær FH í heimsókn
Frítt á völlinn fyrir þá sem mæta merktir liðinu

Það verður barist til síðasta blóðdropa þegar FH-ingar mæta á Nettó-völlinn kl. 19 í kvöld. Það er ljóst að bæði lið hungrar í stigin þrjú sem í boði eru þó staða þeirra sé ólík, Keflvíkingar sitja sem kunnugt er í neðsta sæti deildarinnar með aðeins 5 stig og 19 mörk í mínus en FH-ingar eru í baráttu um efsta sætið.
Keflvíkingar tefla fram tveimur nýjum leikmönnum í kvöld, miðjumanninum Paul Bignot sem kom frá Grimsby og sóknarmanninum Martin Hummervoll sem kom til Keflavíkur sem lánsmaður frá Viking í Noregi, báðir hafa fengið leikheimild fyrir leikinn í kvöld. Auk þeirra gengu varnarmaðurinn Farid Zato og Sóknarmaðurinn Chukwudi “Chuck” Chijindu til liðs við Keflavík nýlega, þannig að það er töluvert breytt Keflavíkurlið sem tekst á við seinni hluta mótsins.
FH-ingar verið sterkari undanfarin ár
Það þarf engann að undra að FH-ingar hafi oftar farið með sigur af hólmi þegar liðin hafa mæst undanfarið, enda liðið verið viðloðandi topp deildarinnar síðustu ár.
Liðin hafa mæst 15 sinnum í öllum keppnum síðastliðin 5 ár og hafa Hafnfirðingar farið með sigur af hólmi í 10 skipti, tvisvar hafa liðin gert jafntefli og þrisvar sinnum hafa keflvíkingar haft betur. Markatalan er skiljanlega nokkuð hliðholl Hafnarfjarðarliðinu sem hefur skorað 40 mörk í þessum fimmtán leikjum gegn 22 Keflvíkinga.
Stuðningsmenn í góðum gír
Stuðningsmenn Keflvíkinga sendu á dögunum frá sér tilkynningu á heimasíðu félagsins þar sem þeir segjast hvergi nærri búnir að gefast upp og kalla eftir stuðningi bæjarbúa – Meðal annars með því að bjóða þeim sem mæta merktir liðinu frítt inn á leikinn í kvöld:
“Við ætlum að grilla fyrir leik og mynda góða stemningu á pöllunum. Allir sem koma merktir Keflavík á völlinn fá frítt inn. Vera í treyjum, með húfur eða trefla merkta liðinu og þið fáið frían miða fyrir ykkur og alla fjölskylduna.
Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn að þeir standi saman þegar mest á reynir. Nú reynir á hvort við rísum undir því og mætum til leiks og stöndum með „Strákunum okkar, Keflavík“ þegar þeir þurfa mest á okkar stuðningi að halda,” segir meðal annars í tilkynningunni.
Bein lýsing á hljóðbylgunni FM 101,2
Keflavík og Hljóðbylgjan gengu nýlega frá samkomulagi um beinar lýsingar frá leikjum Keflavíkur í Pepsí-deildinni og hefst útsending Hljóðbylgjunnar með upphitun kl. 18 en rætt verður við leikmenn og áhorfendur fyrir leik. Eftir leikinn verður síðan farið yfir málin á léttu nótunum, segir í tilkynningu frá Hljóðbylgjunni.
Einnig er leikur í gangi á Facebooksíðu hljóðbylgjunnar þar sem hægt er að vinna miða á leikinn, út að borða, ferð í sjóstangaveiði og þrif á bílnum – Um að gera að taka þátt, en það má gera hér.
Hægt er að hlusta á útvarpstöðina á FM 101,2, í sjónvarpi Simans og á netinu má nálgast útsendingarnar hér.