Hringtorg við Fitjabakka vænlegasti kosturinn

Umhverfis- og skipulagsráð staðfesti a fundi sínum þann 9. maí síðastliðinn að útfærsla A, hringtorg á mótum Njarðarbrautar og Fitjabakka, sé vænlegasti kosturinn varðandi flæði umferðar, umferðaröryggi og hagkvæmni framkvæmdar miðað við kostnað og framkvæmdatíma. Valkostur B, hringtorg á mótum Njarðarbrautar og Bergás, er dýrari, bætir ekki umferðaröryggi eða flæði umferðar inn í hverfið og raskar opnu útivistarsvæði sem nýtur hverfisverndar.
Hringtorg við Njarðarbraut og Fitjabakka er fyrsti liðurinn í samgöngubótum á svæðinu og mikilvægt að það sé að komast á framkvæmdastig, segir í fundargerð. Í framhaldinu þarf að ljúka hönnun nýrra gatnamóta við Grænás á þessu ári, skoða lausnir á gatnamótum Bergáss og Njarðarbrautar og tengingar við Ásahverfið í heild, segir einnig í fundargerð.
Bygging hringtorgs á þessum stað, á gatnamótum Njarðarbrautar og Fitjabakka var gagnrýnd á fundi Atvinnu- og hafnarráðs á dögunum, meðal annars með tilliti til umferðarflæðis og tengingu við Ásahverfi.
Ég vil gagnrýna þær hugmyndir sem uppi eru hjá umhverfis- og framkvæmdasviði um umferð og umferðarflæði á Njarðarbraut, frá Fitjum að Fitjabakka, segir í bókun Sigurðar Guðjónssonar, en þar eru hugmyndir um að setja þriggja stúta hringtorg á mótum Njarðarbrautar og Fitjabakka samhliða því að setja upp ljósastýrð gatnamót á mótum Njarðarbrautar og Bergáss. Slík framkvæmd er langt í frá til þess fallin að bæta það umferðaröngþveiti sem nú þegar skapast á annatíma á þessari leið heldur mun hún gera hlutina verri. Ég velti því upp hvort búið sé að kynna hjá umhverfis- og skipulagsráði aðrar hugmyndir eins og að setja niður fjögurra stúta hringtorg sunnan við Olís líkt og kemur fram í gildandi skipulagi, segir Sigurður í bókuninni.

Mynd: Gildandi skipulag með hringtorg við Bergás
Atvinnu- og hafnarráð hefur í samtali við skipulagsfulltrúa kynnt sambærilega hugmynd um tengingu Bergáss við Njarðarbraut og við Fitjabakka, sem og tengingu inn á Olís, en slík framkvæmd mun skapa gott aðgengi og umferðarflæði á svæðinu. Sú hugmynd skapar einnig möguleikann á að áfram væri leyft að taka hægri beygju inn og hægri beygju út um núverandi gatnamót Njarðarbrautar og Fitjabakka, en banna þar vinstri beygjur. Ég tel að betur sé farið með fé borgaranna með því að vinna að endanlegri lausn mála heldur en með því að fara í skammtímaúrræði eins og felst í núverandi hugmyndum, segir í bókuninni.
Samkvæmt heimildum er framkvæmd hringtorgs við Fitjabakka þegar búin í verðkönnunarferli hjá Reykjanesbæ.