Nýjast á Local Suðurnes

Tvö tjaldsvæði á teikniborðinu í Reykjanesbæ

Reykjanesbær hefur nú til skoðunar að byggja tjaldsvæði í sveitarfélaginu, en umræður um vöntun á slíku svæði hafa reglulega komið upp á samfélagsmiðlum undanfarin ár. Í minnisblaði verkefnastjóra ferðamála kemur fram að staðsetning slíks svæðis væri heppileg á Vatnsholtssvæði. Þá hefur Bílaleigan Happy Campers einnig áform um byggingu á tjaldsvæði á lóð sinni í Innri – Njarðvík og hefur fyrirtækið þegar átt samtal við sveitarfélagið um þátttöku í verkefninu.

Áætlaður kostnaður Reykjanesbæjar vegna verkefnisins á Vatnsholtssvæði yrði um 125 milljónir króna og byggir tillagan á því að skipulag svæðisins yrði tekið til endurskoðunar með breytta notkun í huga þannig að gert sé ráð fyrir tjaldsvæði og öðrum mannvirkjum sem svara þörfum erlendra ferðamanna sem myndu þá hefja eða enda ferðir sínar í Reykjanesbæ og ferðast á camper bílum eða gista í tjöldum og íslenskra ferðamanna sem ferðast á eigin vegum og gista annað hvort á tjaldsvæðum eða í sumarbústöðum.

Í framtíðarsýn þessa svæðis verður leitast við að skipuleggja svæði sem fær tækifæri til að byggjast upp á ofangreindum forsendum með möguleika á útboði til reksturs. Þar með er ekki einungis verið að svara þeim hópi ferðamanna sem líklegir væru til þess að stoppa í lengri tíma á viðkomandi svæði, heldur er verið að skapa rými fyrir samfélagið, með því að setja kvaðir byggðar á ferðamálastefnu er stuðlað að ferðamennsku sem byggir á þörfum heimamanna, er sjálfbær, stuðlar að aukinni atvinnu, fjölbreyttri ferðaþjónustu og stuðlar að aukinni þjónustu og hærra þjónustu stigi.

Sem fyrr segir hafa samtöl farið fram á milli verkefnastjóra ferðamála og fulltrúa Happy Campers og eftir því sem fram kemur í minnisblaðinu mun vera ljóst að ekki er um sama markhóp að ræða og því mætti vel leiða að því líkum að svæðin færu í raun ekki í samkeppni við hvort annað heldur myndu frekar hafa styðjandi samlegðaráhrif, auka fjölbreytni fyrir ferðafólk og efla ferðaþjónustuna í Reykjanesbæ.

Svæðin munu þannig hvort á sinn hátt styðja við aðra þjónustu og viðburði eins og golfmót, íþróttamót og ýmsa menningarviðburði svo dæmi séu tekin.