Nemendur FS geta ekki nýtt sér strætó
Ýmsir vankantar virðast vera á nýju leiðakerfi strætó sem tekur gildi á morgun. Íbúar í efri hverfum Innri-Njarðvíkur hafa látið óánægju sína í ljós undanfarið og nú hefur komið í ljós að kerfið hentar ekki þeim nemendum FS sem nýta sér strætó.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum, en þar segir að strætó stoppi nú lengra frá skólanum og það seint að kennsla sé þegar hafin. Í tilkynningunni kemur einnig fram að ekki hafi verið haft samráð við skólastjórnendur í breytingaferlinu.
Þá hvetja stjórnendur skólans þá nemendur sem málið varðar til þess að senda ábendingar á Reykjanesbæ vegna málsins.