Davíð Eldur og Ólafur taka við ritstjórn Karfan.is
Davíð Eldur Baldursson og Ólafur Þór Jónsson tóku um helgina við sem ritstjórar vinsælasta körfuboltavefmiðils landsins, Karfan.is. Báðir hafa starfað um hríð við fréttaskrif á vefsíðunni.
Karfan.is hóf göngu sína á veraldarvefnum fyrir tæplega ellefu árum, en stofnendur síðunnar voru Suðurnesjamennirnir Jón Björn Ólafsson, Davíð Ingi Jóhannsson og Ingvi Steinn Jóhannsson. Jón Björn hefur ritstýrt vefnum frá upphafi.
Í tilkynningu á heimasíðu Karfan.is kemur fram að á næstunni muni nýir ritstjórar koma sínum áherslum fyrir á síðunni og að það sé einlæg von allra sem að síðunni standa að þeir félagar fái góðar mótttökur sem víðast í hreyfingunni.
Mynd: Karfan.is/Bára