Vildu að hækkun á jólagjöfum færi til bágstaddra
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks í Reykjanesbæ lögðu til við bæjarstjórn að áætluð 20% hækkun á jólagjöfum til starfsmanna í formi gjafabréfa renni til þeirra sem eiga í erfiðleikum með að ná endum saman. Fulltrúar Miðflokksins studdu tillöguna sem var felld af meirihluta bæjarstjórnar.
Tillaga Sjálfstæðisflokks gekk út á það að Velferðarsvið sveitarfélagsins fengi þessa upphæð til að úthluta til þeirra sem mest þurfa á gjafabréfinu að halda. Fulltrúar meirihlutans bentu hinsvegar á að umrædd hækkun næmi einungis 5 prósentum og að starfsfólk Reykjanesbæjar ætti hækkunina skilið fyrir frábær störf við erfiðar aðstæður undanfarið. Bókanir vegna þessa má sjá hér fyrir neðan.
Bókun Sjálfstæðisflokks:
Við leggjum til að sú áætlaða 20% hækkun á jólagjöfum til starfsmanna í formi gjafabréfa renni til þeirra sem eiga í erfiðleikum með að ná endum saman. Velferðarsviðið fái þessa upphæð til að úthluta til þeirra sem mest þurfa á gjafabréfinu að halda.
Margrét Sanders, Baldur Guðmundsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Sjálfstæðisflokki.
Bókun Miðflokks:
„Bæjarfulltrúi Miðflokksins styður þessa framkomnu tillögu. Með henni er verið að koma til móts við fjölda fólks sem reiða sig á fjárhagsaðstoð bæjararins. Þessi tillaga er mikið réttlætismál fyrir það fólk.“
Margrét Þórarinsdóttir (M).
Tillagan er felld með 6 atkvæðum meirihlutans gegn 5 atkvæðum minnihluta.
Bókun meirihluta:
„Meirihlutinn hafnar framkominni tillögu enda er um að ræða 5% hækkun á heildarvirði jólagjafar til starfsfólks. Starfsfólk bæjarins hefur unnið þrekvirki við erfiðar aðstæður og alls ekki boðlegt að tengja jólagjafir til starfsmanna við stöðu velferðarmála. Lögð hefur verið til veruleg hækkun til málaflokksins og væri frekari stuðningur við velferðarmál sjálfstæð ákvörðun. Það er sorglegt að verða vitni að lýðskrumi sem þessu og bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks til háborinnar skammar.“
Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B) og Styrmir Gauti Fjeldsted (S).