Nýjast á Local Suðurnes

64 % fleiri fá fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ

Einstaklingum sem fá fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ hefur fjölgað gríðarlega það sem af er ári. Þannig var heildarfjöldi þeirra sem fengið höfðu fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ til framfærslu á árinu 2019 í október það ár 195 einstaklingar. Það sem af er þessu ári hafa 319 einstaklingar fengið fjárhagsaðstoð sér til framfærslu.

Einstaklingum á fjárhagsaðstoð hefur því fjölgað um 63,6% á tímabilinu október 2019 til október 2020 eða um 124 einstaklinga.

Þetta kemur fram í fundargerð velferðarráðs sveitarfélagsins, en þar kemur einnig fram að í september síðastliðnum hafi 156 einstaklingar fengið fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 23.284.349. Í sama mánuði 2019 fengu 98 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, en þá voru greiddar kr. 14.039.544.

Það sama var uppi á teningnum í október síðastliðnum, en þá fengu 153 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 23.208.056. Í sama mánuði 2019 fengu 103 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 15.070.540.

Þá kemur fram í fundargerð Menningar- og atvinnumálaráðs að atvinnuleysi sé enn að aukast á svæðinu og sé nú tæplega 23% í Reykjanesbæ.