Nýjast á Local Suðurnes

Grindavíkurbær samþykkir frístundastefnu til næstu 5 ára

Hlutverk Grindavíkurbæjar er að bjóða upp á fjölbreytt og vel skipulagt frístundastarf

Bæjarstjórn Grindavíkur hefur samþykkt frístundastefnu fyrir árin 2015-2020 en undirbúningurinn tók eitt ár. Í maí 2014 samþykkti frístunda- og menningarnefnd að fara í stefnumótun um frístundastarf á vegum Grindavíkurbæjar.

Stýrihópur sá um stefnumótunina en hann skipuðu Þorsteinn Gunnarsson sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs, Stefanía Jónsdóttir frá Miðgarði, Petrína Baldursdóttir frá Grunnskóla Grindavíkur og Jóhann Árni Ólafsson frístundaleiðbeinandi. Markmið þessarar stefnumótunarskýrslu var tvíþætt. Annars vegar að greina stöðu frístundastarfs hjá Grindavíkurbæ. Hins vegar að koma með tillögur að stefnumótun og leiðir til að efla frístundastarf til næstu ára.

Haldnir vorufundir með ungmennaráði og nemendaráði grunnskólans, stjórn félags eldri borgara, presti og starfsfólki Miðgarðs og með fötluðum og aðstandendum þeirra. Til grundvallar voru lögð gildi Grindavíkurbæjar. Þá var hlutverk Grindavíkurbæjar í frístundastarfi skilgreint, sett fram framtíðarsýn og lagðar fram sjö stefnumarkandi leiðir.

Bæjarstjórn og bæjarráð fengu stefnuna til til umsagnar sem og aðrir hagsmunaðilar sem og allir bæjarbúar en auglýst var eftir umsögnum á heimasíðu bæjarins. Samráðsferlið hefur því verið eins og best verður á kosið og ýmsar ábendingar teknar inn. Í kjölfarið liggur fyrir fullmótuð stefnumótun.

Úr frístundastefnunni: Um hlutverk og framtíðarsýn

Hlutverk Grindavíkurbæjar er að bjóða upp á fjölbreytt, faglegt og vel skipulagt frístundastarf fyrir ungmenni, fatlaða og eldri borgara, samkvæmt lögum, þar sem aðbúnaður og aðstaða er eins og best verður á kosið. Að styðja við bakið á félagasamtökum sem bjóða upp á faglegt frístundastarf.

Framtíðarsýn frístundastarfs Grindavíkurbæjar:
Faglegt frístundastarf í góðu húsnæði með metnaðarfullu starfsfólki með góðu aðgengi fyrir alla þar sem íbúar á öllum aldri eru virkir þátttakendur. Nemendur grunnskólans búa við samþættingu skóla-, frístunda- og íþróttastarfs. Grindavíkurbær styður við bakið á félagasamtökum sem bjóða upp á frístundastarf eftir skýrum og gagnsæjum leiðum og reglum þar sem aðgengi fyrir alla er lykilatriði.