Nýjast á Local Suðurnes

Fleiri íhuga að kæra stofnanda United Silicon

Arion banki, sem er orðinn langstærsti eigandi United Silicon, íhugar að kæra Magnús Garðarson, stofnanda félagsins, vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot og sömu sögu er að segja af þeim lífeyrissjóðum sem eiga hlut í félaginu, en stjórn United Silicon hefur þegar lagt fram kæru á hendur Magnúsi.

Þetta kemur fram á vef RÚV, en þar er rætt við Gylfa Jónasson, framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðsins Festu, sem segir að sjóðirnir sæki allan þann rétt sem þeir geti sótt.

„Nú er komin kæra frá félaginu til héraðssaksóknara og í framhaldi af því munu sjóðirnir skoða sinn rétt. Það er skelfilegt að þetta skuli hafa komið upp og viðbrögðin eru eiginlega ekkert annað en sjokk, vandamál félagsins voru nú ærin fyrir,“ segir Gylfi.