Nýjast á Local Suðurnes

Bæjarstjórn fagnar niðurstöðu í kísilmverksmiðjumáli

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fram sameiginlega bókun allra bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar, varðandi kísilver Stakksbergs í Helguvík, á fundi bæjarstjórnar á dögunum.

Í bókuninni er meðal annars vakin athygli á því að á Helguvíkursvæðinu eru til staðar fjölmörg tækifæri fyrir atvinnurekstur og hvetur bæjarstjórn aðila í íslensku atvinnulífi að gaumgæfa vel þá valkosti sem bjóðast í nágrenni Helguvíkurhafnar og við alþjóðaflugvöll.

„Þann 1. desember síðastliðinn birtist tilkynning á vefsíðu Arion Banka þess efnis að samningar milli Stakksbergs og PCC um kaup þess síðarnefnda á þrotabúi Kísilvers United Silicon í Helguvík myndu ekki ganga eftir. Síðar í tilkynningunni segir “Í kjölfar þessarar niðurstöðu mun Arion banki horfa til sölu á þeim innviðum sem eru til staðar í Helguvík, annað hvort til flutnings eða með það að markmiði að koma þar upp annars konar starfsemi en kísilframleiðslu.”

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar fagnar því að nú sé komin niðurstaða í málinu og að áralangri óvissu sem uppi hefur verið um starfsemi kísilvinnslu í Helguvík sé nú lokið. Bæjarbúar geta því horft björtum augum fram á við og treyst því að framtíðaruppbygging í Helguvík muni byggja á öðrum grunni en stóriðju.

Bæjarstjórn leggur áherslu á að mikil og fjölbreytt tækifæri felast í framtíðaruppbyggingu svæðisins og ítrekar mikilvægi þess að öll frekari uppbygging á svæðinu sé gerð í samstarfi og sátt við umhverfið og samfélagið í Reykjanesbæ. Nú stendur yfir mikil uppbygging í Reykjanesbæ og nágrenni. Helguvík skipar stórt hlutverk í þeirri uppbyggingu og mun bæjarstjórn Reykjanesbæjar vinna að því að svæðið verði hluti af þeirri jákvæðu uppbyggingu. Verður þar meðal annars unnið eftir þeirri stefnu sem fram kemur í framtíðarsýn Reykjaneshafnar.

Bæjarstjórn vekur athygli á því að á Helguvíkursvæðinu eru til staðar fjölmörg tækifæri fyrir atvinnurekstur og hvetur bæjarstjórn aðila í íslensku atvinnulífi að gaumgæfa vel þá valkosti sem bjóðast í nágrenni Helguvíkurhafnar og við alþjóðaflugvöll. Framúrskarandi stórskipahöfn, nægt framboð hagstæðra atvinnulóða og nálægð við stærstu atvinnugreinar landsins ásamt vel menntuðum og hæfum mannauði eru einungis nokkrir af þeim kostum sem Helguvík og Reykjanesbær bjóða upp á.“