Rekstur á fyrsta heila starfsári Suðurnesjabæjar kemur vel út
Ársreikningur Suðurnesjabæjar fyrir árið 2019 var samþykktur samhljóða á 24. fundi bæjarstjórnar sem fram fór miðvikudaginn 6. maí síðastliðinn.
Jónas Gestur Jónasson og Kristján Þór Ragnarsson frá Deloitte og Elísabet Þórarinsdóttir, fjármálastjóri Suðurnesjabæjar sátu fundinn undir þessum dagskrárlið og fóru yfir ársreikning og endurskoðendaskýrslu.
Helstu niðurstöður ársreiknings eru þær að rekstrartekjur í samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta námu 4.014,7 milljónum króna. Rekstrartekjur A hluta námu 3.812,3 milljónum króna. Rekstrarniðurstaða A-hluta er afgangur að fjárhæð 46,4 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningsskilum A og B hluta, er rekstrarafgangur 37,2 milljónir króna. Heildareignir í samanteknum reikningsskilum A og B hluta eru 8.154 milljónir króna. Heildarskuldir og skuldbindingar eru 4.086 milljónir króna. Lífeyrisskuldbinding hækkar frá árinu 2018 og er 963 milljónir króna. Langtímaskuldir við fjármálastofnanir eru 2.504 milljónir króna og eru næsta árs afborganir langtímalána 175,5 milljón króna. Eigið fé í samanteknum reikningsskilum er 4.067,7 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall 59 %.
Skuldaviðmið A- og B-hluta skv. 14. gr. reglugerðar 502/2012 er 66 % og 40,1% hjá A hluta. Samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga má þetta hlutfall ekki vera hærra en 150%. Rekstur í samanteknum reikningsskilum A og B hluta skilaði 422,3 milljónum króna í veltufé frá rekstri sem er 10,5% af heildartekjum. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum í samanteknum reikningsskilum A og B hluta nam 373,6 milljónum króna á árinu 2019. Á árinu voru engin ný lán tekin en afborganir langtímalána voru 170,7 milljón króna. Handbært fé lækkaði um 247 milljónir króna og var handbært fé í árslok 2019 alls 499,6 milljónir króna.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða ársreikninginn og lagði fram eftirfarandi bókun.
Ársreikningur 2019 nær yfir fyrsta heila starfsár Suðurnesjabæjar. Niðurstöður í rekstri málaflokka var í góðu samræmi við fjárheimildir og heildar niðurstöður nálægt fjárhagsáætlun ársins. Bæjarstjórn lýsir ánægju með þá niðurstöðu og þakkar öllum stjórnendum sveitarfélagsins fyrir þeirra framlag við góðan rekstur. Sterk efnahagsleg staða sveitarfélagsins birtist m.a. í því að skuldaviðmið samkvæmt nýjum viðmiðunarreglum í árslok 2019 er 66 %, og hefur lækkað frá fyrra ári.
Bæjarstjórn lýsir ánægju með þessa niðurstöðu, en samkvæmt fjármálareglum sveitarstjórnarlaga má skuldaviðmið ekki vera yfir 150%. Á árinu 2019 var haldið áfram því verkefni að móta nýtt sveitarfélag og því verkefni er ekki lokið. Starfsfólk sveitarfélagsins hefur lagt af mörkum mikla vinnu við þetta verkefni og fyrir það þakkar bæjarstjórn. Jafnframt hafa fjölmargir aðrir aðilar komið að þeirri vinnu og það er mat bæjarstjórnar að vel hafi tekist til við að leysa úr fjölmörgum og ólíkum verkefnum í tengslum við mótun á nýju sveitarfélagi.
Framundan eru krefjandi tímar með miklum áskorunum í starfsemi og rekstri Suðurnesjabæjar. Það er markmið bæjarstjórnar að Suðurnesjabær veiti íbúum sínum sem mesta og besta þjónustu, þannig að búsetuskilyrði í Suðurnesjabæ verði áfram eins og best er á kosið. Ársreikningur ársins 2019 felur í sér sterka efnahagslega stöðu Suðurnesjabæjar og á því mun bæjarstjórn byggja til framtíðar.