Nýjast á Local Suðurnes

Vinsælasta íbúasíðan fær nýjan stjórnanda – Fékk nóg af frekju og hótunum

Hótanir, frekja og dónaskapur frá notendum er á meðal þess sem fylgir því að stjórna stærstu íbúasíðu Suðurnesja á Facebook og á þessháttar hegðun er stofnandi og núverandi stjórnandi síðunnar Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri búin að fá nóg af og mun síðan verða lögð niður finnist ekki nýr stjórnandi á næstu dögum.

Frá þessu greinir stofnandinn í pistli á síðunni, en þar er í stuttu máli farið í gegnum söguna varðandi tilurð síðunnar sem sett var í loftið árið 2013 og telur um 7.300 meðlimi.

Stofnandinn segist að öllu jöfnu hafa verið mjög ánægð með hvernig til hafi tekist með þessa vinsælu síðu, en segir jafnframt að það séu greinilega ekki allir á sömu blaðsíðu og vilja hafa þetta eins og þeim þóknist.

Þá segir hún að ýmis óþægindi fylgi því að halda utan um þetta stóran hóp á vinsælasta samfélagsmiðli heims, til að mynda hafi hún fengið ómælt magn skilaboða á nóttunni, eggjum hafi verið kastað í glugga heimilisins, auk frekjuláta og hótana. Það ótrúlega við þetta allt saman segir hún vera það að enginn hafi lagt í að tala augliti til auglitis.

Arftaki stofnandans verður tilkynntur á næstunni, en nokkrir eru tilnefndir í umræðum við færsluna á síðunni.