Nýjast á Local Suðurnes

Hafna áframhaldandi samstarfi við Janus Heilsueflingu

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Erindi frá Janus heilsueflingu um tímabundið framhald á verkefninu Fjölþætt heilsuefling 65+ í Reykjanesbæ var hafnað í bæjarráði Reykjanesbæjar á fundi þess í gær. Í bókun ráðsins kemur fram að það sé gert þar sem til stendur að taka upp hvatagreiðslur fyrir eldri borgara á næsta ári.

Í bókuninni kemur einnig fram að vonast sé eftir því að Janus Heilsuefling komi til með að standa eldri borgurum til boða áfram þrátt fyrir breytingarnar.

Bókun bæjarráðs:

“Við viljum þakka Janusi Heilsueflingu sérstaklega fyrir samstarfið á liðnum árum. Samstarfið hefur verið með miklum ágætum allt frá árinu 2017. Verkefnið hefur svo sannarlega verið frumkvöðlastarf í heilsueflingu fyrir elstu íbúa sveitarfélagsins.

Ákveðið hefur verið að taka upp hvatagreiðslur fyrir eldra fólk frá janúar 2024. Þá getur hver og einn valið sína heilsueflingu á eigin forsendum t.d. sund, golf, líkamsrækt, Janus Heilsueflingu o.fl. Hvatagreiðslur eru ætlaðar til lækkunar á námskeiðsgjöldum. Á þennan hátt ríkir jafnræði á meðal eldra fólks í Reykjanesbæ og þeirra sem munu bjóða upp á sértæka heilsueflingu fyrir þann hóp. Það er von okkar að með þessu móti muni fleiri úr hópi eldra fólks sækja sér heilsueflingu.

Það er von okkar að Janus Heilsuefling verði áfram valkostur í heilsueflingu eldra fólks í Reykjanesbæ.”