Epal og Ísey fá tímabundin rými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í vetur
Íslensk hönnun og íslenskt skyr verða í fyrirrúmi á biðsvæði fyrir skiptifarþega á leið milli Evrópu og Norður-Ameríku í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli í vetur. Isavia auglýsti eftir aðilum til að reka veitingasölu eða sérverslun frá byrjun desember til loka maí og voru Epal og Ísey skyr með bestu umsóknirnar að mati valnefndar.
Í verslun Epal verður í boði fjölbreytt úrval hönnunarvara þar sem sérstök áhersla verður á íslenska hönnun, en Epal hefur áður rekið hönnunarverslun í flugstöðinni. Ísey skyr mun bjóða upp á íslenskt skyr og skyrrétti og er þetta í fyrsta sinn sem rekin er veitingasala með sérstakri áherslu á íslenskt skyr í flugstöðinni. Áætlað er að Epal og Ísey skyr hefji rekstur í byrjun desember.
Við mat valnefndar á umsóknum var sérstaklega hugað að hraðri þjónustu þar sem skiptifarþegar dvelja að meðaltali í um 60 mínútur í flugstöðinni. Í valnefnd sátu einn fulltrúi frá Isavia og tveir utanaðkomandi aðilar.