Nýjast á Local Suðurnes

Frítt á völlinn fyrir þátttakendur í áheitaleik Njarðvíkur – Einnig frítt á völlinn í Vogum

Mynd: Knattspyrnudeild Njarðvíkur

Knattspyrnudeild Njarðvíkur og einn helsti stuðningsaðili deildarinnar, Rafholt, hafa ákveðið að bjóða þeim fjölmörgu aðilum sem hafa stutt deildina síðustu daga í Facebook leik deildarinnar á toppslag Njarðvíkur gegn Magna frá Grenivík í kvöld kl. 18:30.

Facebook leikurinn hefur vakið verðsluldaða athygli og hafa hundruðir aðila hérlendis sem erlendis sett inn athugasemdir og smelli hjá þeim sem hafa heitið á deildina. Hafa Rafholtsmenn ákveðið að bjóða þeim sem styrkt hafa Knattspyrnudeildina með þessum hætti, og lagt inn á reikning Facebook leiksins, á leikinn í kvöld.

Þeir sem hafa heitið á deildina þurfa einfaldlega að segja til sín í miðasölunni á Njarðtaksvelli í kvöld. Vonast Knattspyrnudeild Njarðvíkur eftir að sem flestir mæti á völlinn og styðji Njarðvíkurliðið í baráttunni um að vinna sér sæti í 1. deild næsta sumar, segir í tilkynningu.

Mikið húllum-hæ í Vogum – Frítt á völlinn!

Þróttarar í Vogum bjóða einnig frítt á völlinn í kvöld, einnig í samstarfi við helstu stuðningsaðila sína, Stofnfisk og Vogabæ. Liðið er sem stendur í toppbaráttu þriðju deildarinnar og mæta þeir Vogamenn liði KF í kvöld, klukkan 18;45, í alvöru toppslag.

Það verður mikið um að vera á Vogabæjarvelli í kvöld, fyrir leik, í hálfleik og eftir leik, þar sem fjölskyldudagar fara fram í sveitarfélaginu um þessar mundir.

Fyrir leik verða grillaðar pylsur og gos í boði við Vogabæjarhöllina, við félagsmiðstöðina klukkutíma fyrir leik. Í hálfleik fer fram vítaspyrnukeppni í hverfaleikunum og eftir leik verður tendraður varðeldur í fjörunni neðan við Stóru-Voga í umsjón Björgunarsveitarinnar Skyggnis. Brekkusöngvari Íslands, Ingó Veðurguð leiðir sönginn. Grillaðir sykurpúðar í boði Verslunarinnar Vogum.