Skýrar reglur: Enginn í sturtu eftir klukkan 22
Kvörtun barst vegna aðgengis að búningsklefum og sturtuaðstöðu við lokun íþróttahússins í Grindavík á kvöldin og sá Frístunda- og menninganefnd sveitarfélagsins ástæðu til að taka málið fyrir á fundi og óska skýringa frá forstöðumanni íþróttahússins.
Samkvæmt fundargerð svaraði forstöðumaðurinn nefndinni og benti á að lokunartími hússins er klukkan 22:00 og að aðstaða sé aðgengileg fram að þeim tíma. Iðkendur sem nýta sér sturtuaðstöðuna þurfa að stytta æfingatíma sinn sem því nemur til að að eiga möguleika á að fara í sturtu. Bréf verður sent til þeirra félaga sem nýta sér aðstöðuna á þessum tíma þannig að reglur séu skýrar.