Allsherjarleit að Birnu um helgina – Lögregla biður almenning að halda sig til hlés

Aðgerðarstjórnir björgunarsveita á Suðvesturlandi hafa verið kallaðar til og mun fólk úr þeim taka þátt í stjórn allsherjarleitar að Birnu Brjánsdóttur, sem hefur verið saknað frá því á aðfararnótt laugardags. Leitarsvæðið er allt suðvesturhorn landsins.
Lögregla beinir þeim tilmælum til almennings að halda sig til hlés hvað varðar leit að Birnu. Það sé þakkarvert hvað almenningur hafi tekið virkan þátt í leitinni en skilaboðin frá lögreglunni nú séu þau um að láta björgunarsveitarmenn um leitina um helgina.
„Um gríðarlega stóran hóp björgunarsveitarmanna sé að ræða og lögreglan biður almenning um að leyfa lögreglu og björgunarsveitarfólki að leita,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn.
Að sögn Ásgeirs er þetta fagfólk á þessu sviði og þrátt fyrir góðan ásetning er alltaf hætta á að aðrir geti spillt vettvangi. Til að mynda búa til för sem verið er að leita á og ruglað þar með leitarhunda í ríminu. Þetta geti bæði tafið og skemmt fyrir. Eins er veðurspáin slæm fyrir morgundaginn og því ekki ráðlegt að aðrir taki þátt í leitinni, segir Ásgeir í samtali við mbl.is.