Bílastæðamáli Knattspyrnudeildar UMFN vísað til bæjarráðs
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tók síðustu fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs sveitarfélagsins fyrir á fundi sínum þann 18. október síðastliðinn, en þar var meðal annars að finna beiðni Knattspyrnudeildar Njarðvíkur um notkun bílastæða við íþróttavallarhús félagsins við Afreksbraut undir geymslu bílaleigubíla yfir vetrartímann.
Töluverðar umræður spunnust um málið og málefni ferðaþjónustunnar í heild á fundi bæjarstjórnar og sitt sýndist hverjum. Fram kom í máli Baldurs Guðmundssonar, fulltrúa Sjálfstæðisflokks, að fjöldi bílaleigubíla myndi aukast umtalsvert, strax á næsta ári, og sagði hann að bregðast yrði við þeirri aukningu með einhverjum hætti. Ákvað bæjarstjórn að senda málið til frekari umræðu á næsta fundi bæjarráðs.
Hér fyrir neðan má finna upptóku af fundi bæjarstjórnar, en umræður um fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs hefjast á 25. mínútu.