Nýjast á Local Suðurnes

Elvar Már vinsæll í bandaríska boltanum: “Hver er þetta nr. 10? – Hann er ótrúlegur”

Þjálfari körfuknattleiksliðs Barry háskólans sem Elvar Már Friðriksson leikur með, Butch Estes, fer fögrum orðum um Njarðvíkinginn unga í grein sem birt er á vef bandaríska blaðsins Miami Herald í dag. Elvar Már hefur staðið sig einstaklega vel með liðinu í vetur, er að skora 10,4 stig og senda 8,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Þrátt fyrir að annar leikmaður liðsins, Yunio Barrueta, sem nýlega var kosinn leikmaður ársins í deildinni, sé að skila um 25 stigum og taka 9 fráköst í leik er Elvar aðal umræðuefnið á leikjum liðsins að sögn þjálfarans.

“Þrátt fyrir að Yunio sé frábær leikmaður, er það fyrsta sem fólk segir, þegar það sér okkur spila: “Hver er þetta nr. 10? Hann er ótrúlegur.”,” segir Estes. Þá segir Estes að Elvar sé frábær skotmaður auk þess sem hann hafi frábæran skilning á leiknum.

Í greininni, sem finna má hér, er farið yfir feril Elvars í háskólaboltanum og rætt við kappann um heimaslóðirnar og veru hans hjá Barry.