Nýjast á Local Suðurnes

Óveðrið fyrr á ferðinni – Reykjanesbraut enn á lista yfir fyrirhugaðar lokanir

Mynd: Björgunarsveitin Þorbjörn

Óveðrið, sem spáð var að gengi yfir landið um hádegi í dag er heldur fyrr á ferðinni, samkvæmt vef veðurstofunnar. Útlit er fyrir að veður versni á Reykjanesbraut upp úr kl. 12 og má búast við að vindur verði um 25 m/s þvert á brautina, með hviðum allt að 35-40 m/s samfara krapa og vatnsaga.

Reykjanesbrautin er því enn á lista Vegagerðarinnar yfir þá vegi sem fyrirhugað er að loka í dag og er enn skráð að búast megi við því að brautinni verði lokað á milli klukkan 12 og 17. Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast með tilkynningum á vefjum Vegagerðarinnar og Veðurstofunnar, auk Facebook-síðu Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra.

Þá hafa flestir grunnskólar, auk Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sent frá sér tilkynningar þess efnis að foreldrum sé ráðlagt að sækja börn sín í skóla að skóladegi loknum, þar sem búist er við því að veðurhamurinn nái hámarki um það leiti sem skóladegi lýkur.