Nýjast á Local Suðurnes

Fasteignafélag setur fyrstu átta íbúðirnar á Ásbrú á sölu – Sjáðu myndirnar!

Fasteignafélagið 235 Fasteignir hefur sett íbúðir á Ásbrú í sölu. Íbúðirnar eru sérstaklega hugsaðar fyrir fjölskyldufólk og fyrstu íbúðarkaupendur og eru á afar hagstæðum kjörum eða frá 22 milljónum króna að því er kemur fram í fréttatilkynningu, sem birt er á vef VB.is. Fasteignafélagið hefur sett átta íbúðir á Ásbrú, gamla varnarliðssvæðinu, í sölu. Áætlað er að 235 Fasteignir muni selja fleiri íbúðir á svæðinu á næstu mánuðum.

Í fyrsta kasti er um er að ræða átta íbúðir, einn stigagang, í þriggja hæða húsi. Íbúðirnar eru frá 89 m2 að stærð og er ásett verð frá 22 milljónum króna. Opið hús verður á vegum fasteignasölunnar Prodomo þann 3. september næstkomandi, en á vef fasteignasölunnar má finna frekar upplýsingar um íbúðirnar sem auglýstar hafa verið.

„Við leggjum mikla áherslu á að selja fjölskyldufólki eða fyrstu íbúðarkaupendum en ekki stórum félögum sem starfa á leigumarkaði,” segir Ingi Júlíusson, framkvæmdastjóri 235 Fasteigna. „Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á Suðurnesjum er mikil og mun aukast á næstu árum. Á þessu svæði hefur vöxturinn verið hvað mestur á landinu síðustu ár sem sér ekki fyrir endann á. Framtíðin er svo sannarlega björt á Suðurnesjum,” bætir hann við.