Nýjast á Local Suðurnes

Úði og grúði af græjum á sýningu sprengjusérfræðinga – Myndir!

Northern Challenge 2017, alþjóðlegri æfingu sprengjusérfræðinga sem fram fór hér á landi, lauk undir lok nýliðinnar viku. Er það mál þeirra sem að æfingunni komu að hún hefði heppnast einstaklega vel. Æfingin er haldin hér á landi árlega og hafa aldrei verið jafn margir og nú, en að þessu sinni tóku þátt 33 lið frá 15 ríkjum og heildarfjöldi þátttakenda var um 300.

Æfingin, sem er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum, er í umsjón séraðgerða- og sprengjueyðingarsviðs Landhelgisgæslunnar, sem einnig annast skipulagningu hennar og stjórnun. Fjölmargir aðrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar koma að æfingunni auk þess sem varðskip, þyrla, sjómælingabátur og stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar taka þátt. Atlantshafsbandalagið styrkir verkefnið.

Fastur hluti af æfingunni er svo að gestirnir hittast í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli þar sem sprengjuteymin höfðu stillt upp útbúnaði sínum. Þar úði og grúði af græjum, til dæmis sprengjuróbótum, brynvörðum bifreiðum og hlífðarbúnaði af ýmsu tagi, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.