Nýjast á Local Suðurnes

Fasteignaskattur hækkar þrátt fyrir lækkun

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram bókun á fundi bæjarstjórnar í gær vegna gjaldskrár Reykjanesbæjar fyrir árið 2020. Í bókuninni kemur fram að innheimtur fasteignaskattur muni hækka á milli ára þrátt fyrir að samþykkt hafi verið að lækka álagningarprósentuna. Í bókuninni kemur einnig fram að Sjálfstæðismenn telji óþarft að nýta þennan tekjulið fram úr hófi.

Baldur Þ. Guðmundsson flutti bókunina fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, en hana má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:

Í þeirri gjaldskrá sem nú er lögð fram er gert ráð fyrir að mæta hækkun fasteignamats á næsta ári með því að færa fasteignaskattsprósentuna í 0,32% af heildarfasteignamati. Með þeirri lækkun mun innheimtur fasteignaskattur samt hækka á milli ára.

Minnihlutinn harmar að bættur hagur bæjarsjóðs sé ekki nýttur til að svara ákalli bæjarbúa um hóflega innheimtu fasteignaskatta. ASÍ og Byggðastofnun hafa nýlega tekið saman skýrslur þar sem á það er bent að Reykjanesbær innheimtir hæstu fasteignaskatta af öllum bæjarfélögum landsins. Langþráðu lögbundnu skuldaviðmiði hefur verið náð og ORK sjóðurinn skilaði rúmum fjórum milljörðum til bæjarsjóðs þannig að óþarft er að nýta þennan tekjulið fram úr hófi.