Nýjast á Local Suðurnes

Gera ráð fyrir miklum halla á rekstri bæjarsjóðs á næsta ári

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í gær, en þar fór fram síðari umræða um áætlunina. Gert er ráð fyrir miklum halla, að mestu vegna ástands í tengslum við faraldur kórónuveirunnar, en um leið að farið verði í töluvert af stórum framkvæmdum.

Gert er ráð fyrir að tekjur bæjarsjóðs lækki á milli áranna 2020 og 2021 um 200 milljónir króna en rekstrarkostnaður hækki um 1.200 milljónir króna. Helstu ástæður eru samningsbundnar launahækkanir og aukin útgjöld m.a. vegna erfiðs atvinnuástands. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsgjalda er gert ráð fyrir að bæjarsjóður verði rekinn með 2.500 millj. kr. halla en samstæða A og B hluta með samtals um 2.000 millj. kr. halla árið 2021.

Gert er ráð fyrir að ráðist verði í margvíslegar framkvæmdir 2021. Til viðbótar við árlegt viðhald fasteigna og gatnakerfis eru nokkur stærri verkefni á döfinni. Má þar nefna nýframkvæmd á íþróttahúsi og sundlaug við Stapaskóla, nýtt hjúkrunarheimili, nýja hreinsistöð fráveitu og framkvæmdir og uppbyggingu við Njarðvíkurhöfn.

Þá er gert ráð fyrir að skuldaviðmið samstæðunnar hækkii en verði áfram innan lögboðinna 150% marka og að veltufjárhlutfall bæjarsjóðs verði 0,78.