Nýjast á Local Suðurnes

Vara við viðskiptum við tvær bílaleigur á Suðurnesjum í eigu sömu aðila

Neytendasamtökin sjá sig knúin að vara fólk við að eiga viðskipti við bílaleiguna CC bílaleiga (City Car Rental), í tilkynningu á vef sínum. Fyrirtækið hefur sex sinnum tapað málum sem neytendur hafa lagt fyrir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa og í öllum tilfellum neitar bílaleigan að hlíta niðurstöðunni.

Þá hefur bílaleigan Nordic Car Rental, sem er í eigu sömu aðila einnig tapað máli fyrir kærunefndinni og ekki orðið við kröfum neytanda um bætur. Fyrirtækin hafa höfuðstöðvar í Reykjanesbæ.

Kvartanir neytenda gegn bílaleigunni eru fjölbreyttar og varða gjarnan háar upphæðir, samkvæmt vef Neytendasamtakanna. Hæsta krafan er upp á 1.600.000 krónur. Þegar bílaleigubíll bilar eða tjón verður á bíl geta neytendur staðið frammi fyrir því að greiða reikning án þess að hafa nokkra yfirsýn yfir málið. Heiðvirðar bílaleigur gera upp málin og endurgreiða ofgreiddar upphæðir, til dæmis ef í ljós kemur að viðgerðarkostnaður er lægri en áætlað var eða ef tjón/bilun er ekki neytanda að kenna. CC bílaleiga hefur hins vegar annan háttinn á, segir á vef Neytendasamtakanna hvar málið er tíundað.

Hulda Dís Snorradóttir, framkvæmdastjóri CC bílaleigu, segir að öllum ábendingum sé vel tekið og brugðist við þeim.

„Við erum með málið í vinnslu og erum að skoða þetta með lögfræðingi.“ Segir Hulda Dís í samtali við fréttastofu RÚV, sem fjallaði um málið.