Nýjast á Local Suðurnes

Fjölskylda með langveikt barn fékk bláa Dusterinn

Fjölskyldufyrirtækið Blue car rental stóð fyrir áhugaverðu verkefni í desember þar sem fyrirtækið gaf bíl í gegnum Blue Cares verkefnið, sem í gegnum tíðina hefur veitt styrki til fjölmargra góðgerðarmála.

Að þessu sinni gekk verkefnið út á að fólk gat sent ábendingar um fjölskyldur sem þyrftu á bíl að halda og í byrjun janúar var farið í gegnum ábendingar og heppin fjölskylda valin.

Á Facebook-síðu verkefnisins kemur fram að mörg þúsund umsóknir hafi borist og að fulltrúar Blue Cares hafi talið þau Emilíu, Örvar og soninn Aron eiga bifreiðina skilið.

Aron varð tveggja ára í nóvember og glímir hann við sjaldgæfan sjúkdóm sem kallast Krabbe disease. Sem ungir foreldrar hafa Emilía og Örvar þurft að axla mikla ábyrgð en erfiðleikar Arons kalla á umönnun allan sólarhringinn, segir á Facebook-síðu Blue Cares.

Þá segir að “…í gegnum tíðina hafi Blue Cares verkefnið að miklu leiti snúið að börnum með sérþarfir og því hitti það okkur í hjartastað þegar við heyrðum af erfiðleikum þessarar ungu fjölskyldu.

Við þökkum öllum sem tóku þátt í þessu skemmtilega verkefni okkar en gríðarlegur fjöldi af umsóknum barst. Það má með sanni segja að margir hafi átt hann skilið sem gerði leitina krefjandi en afar gefandi.

Við óskum Emilíu, Örvari og Aroni til hamingju. Þau eiga hann svo sannarlega skilið!”