Nýjast á Local Suðurnes

Veglegar jólagjafir ferðaþjónustufyrirtækja – Gjafir Isavia gengu kaupum og sölum

66 Norður er eitt vinsælasta tískumerki landsins og gengu gjafabréf starfsmanna Isavia kaupum og sölum fyrir jól

Jólagjafir Isavia, Icelandair og Bláa lónsins til starfsfólks voru veglegar þetta árið, í takt við uppganginn í ferðamannageiranum. Starfsfólk Isavia og Fríhafnarinnar, sem er hluti af samstæðu Isavia, fékk 30 þúsund króna gjafabréf hjá 66 Norður frá vinnuveitandanum, á meðan Bláa lónið gaf starfsfólki sínu 50 þúsund króna gjafabréf auk körfu sem innihélt Blue Lagoon vörur. Hjá Icelandair fékk starfsfólk matarkörfu og 6.000 króna gjafabréf hjá Icelandair Hotels.

Þá voru fyrirtæki í fjármálageiranum rausnarleg við sitt fólk, samkvæmt úttekt Vísis.is, en bankarnir tveir, sem reka útibú á Suðurnesjum gáfu gjafir í flottari kantinum, Íslandsbanki gaf sínu starfsfólki 40 þúsund króna Garmin-heilsuúr en starfsfólk Landsbankans fékk heyrnartól sem útilokar umhverfishljóð.

Hjá Isavia og Fríhöfninni starfa um 1.700 manns og hjá Bláa lóninu eru tæplega 600 manns við störf, heildarverðmæti gjafa fyrirtækjanna tveggja er því um 80 milljónir króna. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia vildi ekki gefa upp kostnað fyrirtækisins við jólagjafakaupin, í spjalli við Suðurnes.net, en sagði fyrirtækið fá góðan afslátt af viðskiptum sínum við 66 Norður.

Athygli vakti að töluvert var um að gjafakortin sem áttu að enda undir jólatrjám starfsfólks Isavia væru auglýst til sölu á vinsælum sölusíðum og íbúahópum á samfélagsmiðlum fyrir jólin og var algengt verð á bilinu 20-25 þúsund krónur.