Nýjast á Local Suðurnes

Leggja til að Íþróttaakademían verði seld og að byggð verði ný fimleikahöll

Ráðgjafafyrirtækið Capacent leggur til að fundinn verði kaupandi af Íþróttaakademíunni eða henni fundin önnur not, og að í staðinn verði byggð verði fimleikahöll í nálægð við Reykjaneshöllina. Þetta kemur fram í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið vann fyrir Reykjanesbæ og kynnt var á dögunum.

Takist ekki að selja húsnæðið leggur Capacent til að sá möguleiki yrði skoðaður að byggt yrði við núverandi húsnæði í stað þess að byggja nýtt.

Ef af byggingu nýrri og stærri fimleikahallar yrði væri hægt að taka á móti öllum sem vilja æfa eða prófa fimleika, segir í skýrslunni auk þess sem nægt geymslurými fyrir áhöld og dýnur væri tryggt. Þá yrði einnig hægt að bjóða upp á að stundaðar yrðu fleiri íþróttagreinar eins og hópfimleika en sú íþrótt hefur verið í mikilli uppbyggingu. Því til viðbótar yrði hægt að bjóða upp á greinarnar, Fimleikar fyrir alla og Parkur sem eru ódýrari íþróttir og henta breiðari hópi barna. Að auki gæti félagið haldið fimleikamót sem yrði tekjuaukandi fyrir félagið.

Kostnaður við nýja fimleikahöll er áætlaður um 650 milljónir króna, en ráðgjafafyrirtækið segir skynsamlegt að skoða hvort koma mætti bardagaíþróttunum sem stundaðar eru í Reykjanesbæ fyrir í sama húsnæði, eða í það minnsta að hægt verði að keppa í þeim íþróttum í hinni nýju höll.