Nýjast á Local Suðurnes

Sláturhúsið gæti orðið heimavöllur Njarðvíkinga

Sláturhúsið gæti orðið heimavöllur Njarðvíkinga

Keppnisvöllur körfuknattleiksliðs Njarðvíkur er á undanþágu hjá Körfuknattleikssambandinu, en völlurinn er ólöglegur í núverandi mynd. Nýtt íþróttahús við Stapaskóla myndi leysa vanda körfuknattleiksdeildarinnar að mörgu leyti, sér í lagi þegar það kemur að æfingum yngri flokka í körfubolta.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu Capacent um íþróttaaðstöðu og -mannvirki í Reykjanesbæ. Þar kemur einnig fram að keppnishöll í körfubolta hefur verið sett seinna í forgangsröðina í uppbyggingu nýrra íþróttamannvirkja en margir hefðu viljað þar sem mörg vandamál verða leyst með nýju íþróttahúsi sem verður byggt við Stapaskóla.

Í skýrslunni kemur einnig fram að ef til þess kæmi að heimavöllur Njarðvíkinga, Ljónagryfjan, fái ekki frekari undanþágu sem keppnisvöllur eða Njarðvík vill fá aðgang að löglegum keppnisvelli tafarlaust, er lítið því til fyrirstöðu að liðið leiki keppnisleiki sína í körfubolta í íþróttahúsinu við Sunnubraut, Sláturhúsinu, þar til nýtt fjölnotaíþróttahús hefur verið byggt.