Nýjast á Local Suðurnes

Hlutaúttekt á HSS: Aðgengi að læknisþjónustu er ábótavant og langur biðtími

Árangur heilsugæslu Heilbrigðisstofnunnar Suðuðunesja, hvað varðar gæði og öryggi er ekki sýnilegur, samkvæmt skýrlu hlutaúttektar Embættis Landlæknis á starfsemi stofnunarinnar. Úttektin er áfellisdómur yfir stjórnendum heilsugæslunnar, en stofnunin vinnur ekki eftir eigin stefnumörkun eða aðgerðaráætlun og ekki var að heyra hjá stjórnendum að til stæði að leggja af stað í slíka vegferð á næstunni.

Úttekt Landlæknisembættisins tók til atriða er varða stefnumörkun, stjórnun, vinnubrögð starfsfólks, gæðastarf og öryggismenningu, mönnun, húsnæði og aðbúnað – Úttektin var unninn með heimsókn á HSS, þar sem fundað var með yfirmönnum stofnunarinnar, auk þess sem rætt var við lækna og hjúkrunarfræðinga sem þar starfa. Þá voru skoðaðar fyrirliggjandi upplýsingar varðandi ábendingar, kvartanir, atvikaskráningu og tilkynningar um alvarleg atvik. Halldór Jónsson forstjóri HSS var ekki viðstaddur úttektarheimsóknina.

Í úttektinni kemur fram að þjónustukönnun ekki verið gerð síðan árið 2012 og gæðavísar ekki notaðir. Það er því erfitt að meta gæði og öryggi þjónustunnar, að mati skýrsluhöfunda, sem telja þó að Heilsugæsla HSS hafi á að skipa hæfu starfsfólki sem gerir sitt besta oft við erfiðar aðstæður.

Aðgengi að læknisþjónustu á dagvinnutíma er ábótavant, biðtími eftir tíma hjá sérstökum lækni langur. Hjúkrunarmóttaka er hins vegar öflug á dagvinnutíma og sinnir margvíslegum verkefnum. Um skipulagða þverfaglega teymisvinnu er ekki að ræða. Mönnun lækna og hjúkrunarfræðinga er ónóg og má lítið út af bera til að öryggi sé hugsanlega ógnað vegna ófullnægjandi mönnunar. Þá segir í skýrslunni að Heilsugæslan sé augljóslega undirmönnuð af fagfólki, sérstaklega er ástandið slæmt í geðteymi og meðferðarteymi barna.

Í úttektinni kemur einnig fram að á innri vef HSS sé að finna gæðahandbók þar sem finna má alls kyns verklagsreglur, sérstakur verkefnisstjóri hafi verið ráðinn til að vinna að endurskoðun hennar og eru miklar væntingar til þeirrar vinnu. Allir nýir starfsmenn eru hvattir til að kynna sér þessar verklagsreglur. Stofnunin hefur gert samning við LSH um ákveðinn aðgang að gæðahandbók spítalans sem er mjög til bóta. Að undanskilinni vinnu við endurskoðun verkferla er ekki um kerfisbundið umbótastarf á heilsugæslunni að ræða en stjórnendur töluðu um að töluvert væri um alls kyns „smáverkefni“ hér og þar – Þá eru gæðavísar eru ekki sýnilegir og því vandséð hvernig gæði og öryggi þjónustunnar er metið, segir í skýrslunni.

Mat embættis Landlæknis: Kvartað yfir fjarlægð framkvæmdastjórnar

Hluta af vanda heilsugæslu HSS má rekja til skorts á stefnumörkun og ósýnileika framkvæmdastjórnar. Ekki er skráð með sýnilegum hætti hver stefna heilsugæslunnar er, hvaða árangri heilsugæslan hyggst ná, né hvernig árangur er gerður sýnilegur sjúklingum og starfsfólki.

Hvorki er um heildræna gæðastefnu né kerfisbundið umbótastarf að ræða á heilsugæslu HSS. Ýmis konar verkefni sem unnin eru víðs vegar á heilsugæslunni eru ekki samhæfð og ekki sýnileg öllu starfsfólki heilsugæslunnar. Í úttektinni komu fram kvartanir yfir fjarlægð framkvæmdastjórnar og kallað var eftir auknum stuðningi hennar.