Nýjast á Local Suðurnes

Boðað verður til íbúafundar vegna öryggisvistunar

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar - Mynd: Skjáskot RÚV

Boðað verður til íbúafundar vegna fyrirhugaðrar byggingar öryggisvistunar á vegum Félagsmálaráðuneytisins í Reykjanesbæ þegar nær dregur framkvæmdum, en ráðuneytið hefur sótt um lóð undir slíka starfsemi í sveitarfélaginu. Þetta kemur fram í svari bæjarstjóra, Kjartans Más Kjartanssonar í umræðum um málið í Facebook-hóp íbúa Reykjanesbæjar.

Umræðurnar eru líflegar og ljóst að mikill meirihluti þeirra sem taka þátt í þeim eru á móti slíkri starfsemi nærri byggð, en til stendur að byggja húsnæði undir starfsemina í útjaðri nýs hverfis, Dalshverfis 3.

Svar bæjarstjóra má sjá hér fyrir neðan:

“… Nú voru það umræður um breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins og mögulega öryggisvistun á vegum ríkisins. Til að ljúka þeirri umræðu í bili skal ég lofa ykkur því að þegar línur hafa skýrst frekar í því máli verður boðað til íbúafundar þar sem fulltrúar félagsmálaráðuneytisins/ríkisins munu kynna undirbúning og hugmyndafræðina á bak við verkefnið og hvernig til stendur að tryggja öryggi íbúa Reykjanesbæjar, starfsfólks stofnunarinnar og skjólstæðinganna sjálfra.” Segir í svari bæjarstjóra.