Nýjast á Local Suðurnes

ÍAV ekki fengið viðbrögð frá Reykjanesbæ eftir að tilboði í byggingu leikskóla var hafnað

Forstjóri ÍAV, Þóroddur Ottesen, segist í svari við fyrirspurn sudurnes.net ekki hafa fengið viðbrögð frá Reykjanesbæ í kjölfar þess að tilboði fyrirtækisins í byggingu þriðja áfanga Stapaskóla hafi verið hafnað af bæjarráði. Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs sveitarfélagsins segir tilboðið of hátt.

Í svari við fyrirspurn staðfesti Guðlaugur Helgi að tilboði fyrirtækisins hafi verið hafnað þar sem það var tæplega 30% yfir kostnaðaráætlun sveitarfélagsins, sem hljómar upp á rúmar 1350 milljónir króna. Guðlaugur staðfesti einnig að ekki hafi enn verið haft samband við tilboðsgjafa formlega þar sem verið sé að skoða hvaða leiðir sé hægt að fara í þeirri stöðu sem upp sé komin. Hann sagði þó nokkuð ljóst að sveitarfélagið myndi ekki byggja leikskóla á rúmlega milljón krónur á fermeter.