Nýjast á Local Suðurnes

Forstjóraskipti hjá ÍAV – Sigurður tekur við af Karli

Sigurður R. Ragnarsson mun taka við stöðu forstjóra ÍAV, en Karl Þráinsson sem hefur verið forstjóri fyrirtækisins undanfarin ár mun áfram sitja í stjórn félagsins auk þess sem hann tekur við stöðu stjórnarformanns.

Sigurður Ragnarsson nýr forstjóri ÍAV hf.

Sigurður Ragnarsson nýr forstjóri ÍAV hf.

Sigurður hefur starfað hjá ÍAV síðan árið 2006, þar af sem framkvæmdastjóri tæknisviðs á árunum 2011 til 2013 og framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs frá 2014.

ÍAV er eitt stærsta og öflugasta verktakafyrirtæki landsins og hefur verið þátttakandi á öllum sviðum byggingariðnaðar og mannvirkjagerðar á Suðurnesjum frá stofnun forvera þess, Íslenskra aðalverktaka sf. árið 1954.

Fyrirtækið er enn með umfangsmikla starfsemi á Suðurnesjum en fyrirtækið er með verkefni í tengslum við byggingu kísilvera í Helguvík, þjónustusamninga við HS  Veitur og HS Orku auk þess sem fyrirtækið rekur malarvinnslur í Stapafelli og Rauðamel á Suðurnesjum.

ÍAV hf er nú alfarið í eigu Marti Holding AG frá Sviss, Marti Holding á um 80 fyrirtæki víðsvegar um heim sem eru öll rekin sem sjálfstæðar einingar.