Til umræðu að bjóða fleiri störf í sumar vegna uppsagna á Keflavíkurflugvelli
Suðurnesjabær hefur til athugunar að ráða nemendur framhaldsskóla og háskóla til vinnu við verkefni hjá bæjarfélaginu í sumar, ef þeir fá ekki vinnu á Keflavíkurflugvelli vegna gjaldþrots WOW air.
Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar, segir að þetta sé ein þeirra aðgerða sem til umræðu sé og verði örugglega gripið til hennar ef ekki verði vinnu að hafa í sumar.
Fall WOW air er áfall fyrir íbúa sveitarfélaganna á Suðurnesjum, sérstaklega Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar. Hluti starfsmanna flugfélagsins sem misstu vinnuna við gjaldþrotið og var sagt upp af þjónustufyrirtækjum í kjölfarið er búsettur í þessum sveitarfélögum.