Nýjast á Local Suðurnes

Ýjar að óeðlilegum tengslum við atvinnulífið – Fyrirtæki crossfitstjörnu og sundmeistara á listanum

Formannsefni B-lista til framboðs í stjórnarkjöri í Verslunarmannafélagi Suðurnesja (VS), Tómas Elí Guðmundsson, ýjar að óeðlilegum tengslum frambjóðenda A-lista við viðskiptalífið í aðsendri grein sem birt er á vefmiðlinum Stundinni. Fyrirtæki íþróttafólksins Ragnheiðar Söru Sigmundsdóttur og Davíðs Hildibergs Aðalsteinssonar eru á meðal þeirra fyrirtækja sem tengjast fólki sem er í framboði til stjórnar VS.

Á listanum, sem uppsettur er líkt og oft mátti sjá í tengslum við afhjúpun Panamaskjalanna, er meðal annars að finna fyrirtæki crossfitstörnunnar Ragnheiðar Söru Sigmundsdóttur, Elite Performace ehf., sem stofnað var árið 2015, eða um þær mundir sem íþróttakonan skaust á stjörnuhimininn í íþróttinni. Eftir því sem næst verður komist nýtir Ragnheiður Sara fyrirtækið í tengslum við styrktarsamninga og önnur mál tengd keppnisferlinum í crossfit. Móðir Ragnheiðar Söru er í kjöri til trúnaðarráðs VS.

Tengsl sundmeistarans Davíðs Hildibergs Aðalsteinssonar munu einnig vera við móður Ragnheiðar Söru, samkvæmt grein formannsefnis B-lista, en hann er systursonur hennar. Davíð hefur unnið til fjölda verðlauna á sundferli sínum og er meðal annars Norðurlandameistari í 100 metra baksundi.

Þá er látinn einstaklingur tilgreindur á tengslanetalista formannsefnis B-lista í greininni, en sá aðili rak fyrirtæki fyrir um áratug síðan og var tengdur einum af frambjóðendum A-lista fjölskylduböndum.

Auk ofangreindra tengsla er fjöldi fyrirtækja á listanum sem formansefnið birtir í greininni, en flest þeirra halda utan um rekstur lítilla fyrirtækja í eigu skyldmenna frambjóðenda.