Nýjast á Local Suðurnes

Ragnheiður Sara endaði í 3ja sæti á heimsleikunum í crossfit

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir var rétt í þessu að tryggja sér  3ja sætið á heimsleikunum í crossfit sem fram fóru í Carson í Kaliforníu. Sara eins og hún er jafnan kölluð var fyrir leikana spáð góðu gengi af fjölmiðlum vestanhafs sem fjalla um íþróttina og það hefur gengið eftir en Sara var sem kunnugt er að taka þátt í heimsleikunum í fyrsta skipti.

Sara sem var í fyrsta sæti nær alla leikana lenti í erfiðleikum í síðustu þrautinni sem varð til þess að að hún tapaði 1. sætinu. Það er þó huggun harmi gegn að sigurvegari leikanna kemur frá Íslandi en það er Katrín Tanja Davíðsdóttir, en hún hlýtur tæpar 40 milljónir króna í verðlaun – 3ja sætið tryggði Söru um 6 milljónir króna.

Árangur Söru verður að teljast sérstaklega góður í ljósi þess að einungis eru um þrjú ár síðan hún byrjaði að stunda crossfit af alvöru en hún hefur undanfarið ár unnið til fjölda verðlauna, hún er meðal annars Evrópumeistari kvenna í íþróttinni.