Nýjast á Local Suðurnes

Albanir koma oftast við sögu í skilríkjamálum

Rúmlega 20 skilríkjamál komu upp í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á fyrstu þremur mánuðum ársins eða samtals 21 mál. Auk þess hafa tvö mál komið upp það sem af er aprílmánuði. Aldrei hafa skilríkjamálin verið jafn mörg í flugstöðinni á sama tímabili nokkurt annað ár.

Þegar heildarfjöldi slíkra mála fyrir hvert ár er skoðaður þá var síðasta ár, árið 2017, metár þegar upp komu 92 skilríkjamál í flugstöðinni allt það ár. Það ár komu 14 skilríkjamál upp í flugstöðinni á tímabilinu frá janúar til og með mars.

Af því 21 máli sem upp kom fyrstu þrjá mánuði þessa árs voru skilríkin breytifölsuð í 10 tilvikum, grunnfölsuð í 9 tilvikum en í tveimur tilvikum framvísuðu aðilarnir ófölsuðum skilríkjum annarra (e. impostor).

Aðilarnir í málunum eru af 8 þjóðernum. Albanskt þjóðerni kom oftast við sögu.

Oftast komu grísk og ítölsk skilríki við sögu í málunum 21.

Flestir þeir sem ferðast á fölsuðum skilríkjum leggja af stað frá öðrum Schengen ríkjum og millilenda í Keflavík. Þeir eru gripnir þegar þeir ætlar sér að ferðast út af svæðinu um landamærin í FLE til áfangastaða ýmist í Bretlandi, Írlandi eða Kanada.

Þegar tölur um skilríkjamál fyrri ára eru skoðaðar er lang algengast að loka ákvörðunarstaður sé í Kanada. Athyglisvert er að breyting er á þessu á þessu ári þar sem Kanada er loka ákvörðunarstaður í einungis þriðjungi málanna en Bretland og Írland ákvörðunarstaður í meira en helmingi tilvika.