Nýjast á Local Suðurnes

B-lið Njarðvíkur áfram í bikarnum – Fá Hauka í 16 liða úrslitum

B-lið Njarðvíkur lagði 1. deildarlið Skallagríms að velli í 32ja liða úrslitum Maltbikarkeppninnar í körfuknattleik í Ljónagryfjunni í kvöld. Liðið á verðugt verkefni fyrir höndum, en það mætir úrvalsdeildarliði Hauka í 16 liða úrslitum keppninnar.

Njarðvíkurliðið, sem lék án erlends leikmanns í kvöld, var þremur stigum undir að loknum fyrsta leikhluta, 21-24, en náðu forystunni snemma í þeim næsta og leiddi í leikhléi, 45-43.

Njarðvíkingar náðu svo mest 12 stiga forystu í síðari hálfleik og áttu Skallagrímsmenn í mestu erfiðleikum með að stöðva kempur á borð við Pál Kristinsson, Pál Axel Vilbergsson og Magnús Þór Gunnarsson, sem hirtu fráköst og skoruðu stig á mikilvægum augnablikum. Það voru þó öflug liðsheild og vel tímasettar skiptingar sem lögðu grunninn að fimm stiga sigri Njarðvíkinga, 100-95.

Magnús Þór var stigahæstur Njarðvíkinga í leiknum með 26 stig, Páll Kristinsson skoraði 24, Gunnar Einarsson 12 og Ólafur Aron Invason 10.