Efnishyggja – þægindi eða sýndarmennska
Fjármál okkar snúast að mestu um að hjálpa okkur að nálgast veraldleg lífsgæði. Við kaupum vörur og þjónustu með peningum. Þegar við breytum fjármálunum okkar þá þurfum við að endurskoða viðhorf okkar til efnislegra lífsgæða. Eru þau raunveruleg þægindi í okkar líf eða eru þau þarfa sýndarmennska?
Þegar við endurskoðum dagleg útgjöld okkar til að hagræða fjármálum okkar þá þurfum við að spyrja okkur hvernig við veljum okkar efnislegu lífsgæði. Eru þau raunveruleg eins og húsnæði, bíll, farsími og föt eða eru þau sýndargæði? Gætum við upplifað sambærileg lífsgæði og þægindi með minna húsnæði? Kæmumst við líka frá A til B á ódýrari bíl? Er hægt að hringja úr ódýrari farsímum og mega fötin vera seinni tíma tískuföt úr outlet verslun?
Mörg okkar falla í þá gryfju að halda uppi sömu hefðum og sömu viðhorfum þrátt fyrir að tekjur okkar hafi lækkað. Við „reynum“ að halda sama status með því að eyða í sömu lífsgæði og við gerðum áður. Mörg okkar husga að þetta sé tímabundið ástand, t.d. vegna barnaeigna, skyndilegs atvinnuleysis, eða vegna þess að við förum í nám. Mörg okkar halda áfram sömu hegðun án þess að hugsa út í það og elta bara gömlu ósýnilegu venjurnar sínar. Við áttum okkur ekki á að ef tekjur lækka um 50 þúsund krónur þá verða útgjöldin að gera það líka.
Hluti útgjaldalækkunarinnar er að minnka þennan kostnað – efnislegu lífsgæðin. Endurskoðaðu hvort þú getir búið í ódýrara húsnæði, endurskoðaðu hvort þú getir átt bíl sem ér ódýrari í rekstri, og hvort þú getir keypt svipuð föt ódýrari en dýru fatamerkin. Endurskoðaðu hvar þú kaupir í matinn og hvort þú getir keypt sömu vörur ódýrari annars staðar.
Ég mæli með að þú veljir efnisleg lífsgæði sem auka við þægindi hversdagins fremur en að velja lífsgæði sem bæta álit og viðhorf. Farsími er alltaf farsími sama hver framleiðandi hans er. Þú getur fengið farsíma sem kostar fimm sinnum minna en sá dýrasti en færir þér sömu þægindi og sá dýri.
Líðan okkar er mikilvægari og dýrmætari en efnishyggjan. Þótt okkur kunni að líða vel með að falla í hóp þeirra sem betur hafa það þá eru fjárhagslegt öryggi miklu stærra og áhrifameira en að aka „rétta bílnum“, tala í „réttan síma“ og klæðast nýjustu tísku.
Þú upplifir betri líðan þegar þú tekur ákvarðanir sem minnka fjárhagsáhyggjur þínar. Finndu hver þín líðan á að vera og hagræddu og minnkaðu kostnað án þess að skerða þægindin.