Nýjast á Local Suðurnes

Keflavíkurflugvöllur skilar Isavia um 70% af tekjum samstæðunnar

Rekstrarafkoma Isavia fyrir fjármagnsliði og skatta á fyrri helmingi ársins 2015 var jákvæð um 1.247 milljónir króna og jókst um ríflega 20% á milli ára. Rekstrartekjur námu 11.454 milljónum króna sem er 1.526 milljóna króna aukning samanborið við sama tímabil á síðasta ári eða ríflega 13%.  Heildarafkoma tímabilsins var jákvæð um 540 milljónir króna samanborið við 836 milljónir króna á sama tímabili á síðasta ári. Þessa lækkun má að fullu rekja til gengisáhrifa af erlendum fjáreignum og skuldum.

„Isavia samstæðan samanstendur af rekstri Keflavíkurflugvallar, Fríhafnarinnar, innanlandsflugvallakerfis og starfsemi í flugleiðsöguþjónustu. Rekstrarafkoma allra þessara þátta var betri en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir og má rekja þann árangur m.a. til aukinnar flugumferðar og fjölgunar farþega sem fara um flugvelli landsins,“ segir Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia og bætir við: „Viðfangsefni komandi missera eru að tryggja að vöxtur félagsins verið áfram arðsamur og teknar verði skynsamlegar ákvarðanir þegar kemur að fjárfestingu í aukinni afkastagetu, sérstaklega á Keflavíkurflugvelli. Mikil farþegaaukning umfram áætlanir Isavia og flugrekenda skapaði álag á starfsfólk okkar sem stóð vaktina af miklum myndarskap og sá til þess að áhrifin á farþega yrðu sem minnst.“

Starfsemi félagsins á Keflavíkurflugvelli skilaði um 70% af tekjum samstæðunnar

Flugumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið jókst fyrstu sex mánuði ársins um 11% og flugumferð til og frá Íslandi jókst um 12%. Þá tók Isavia nýverið að sér stjórn flugumferðar á flugvellinum í Kangerlussuaq (Syðri-Straumfirði). Kangerlussuaq er eini flugvöllurinn á Grænlandi sem er með flugumferðarstjórn og fer mikill meirihluti millilandsflugs um flugvöllinn.

Á fyrstu sex mánuðum ársins fóru ríflega tvær milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll sem er um 25% aukning frá sama tímabili í fyrra. Þetta er sami fjöldi og fór um flugvöllinn allt árið 2010 þegar Isavia var stofnað. Gert er ráð fyrir því að fjöldi farþega árið 2015 verði um 4,8 milljónir talsins og áætlanir félagsins gera ráð fyrir áframhaldandi vexti á næsta ári.

Starfsemi félagsins á Keflavíkurflugvelli skilaði um 70% af tekjum samstæðunnar fyrir tímabilið og af 3.787 milljóna króna fjárfestingum í varanlegum rekstrarfjármunum tengjast um 87% uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Það er ljóst að ef áætlanir um áframhaldandi vöxt farþega ganga eftir þá mun hlutfall Keflavíkurflugvallar í rekstri og efnahag Isavia halda áfram að vaxa hratt. Nauðsynlegt er að leggja í miklar fjárfestingar á Keflavíkurflugvelli á komandi mánuðum svo afkastageta vallarins verði í takt við áætlanir notenda um fjölda farþega næsta sumar. Rekstur Keflavíkurflugvallar hefur mörg síðustu árin verið sjálfbær og áætlanir félagsins gera ráð fyrir að vöxturinn sem framundan er geti staðið undir sér með áframhaldandi ráðdeild í rekstri og skynsamlegri nýtingu fjármagns. Sú uppbygging sem nauðsynleg er á Keflavíkurflugvelli næstu árin verður ekki eingöngu fjármögnuð úr rekstri svo ljóst er að Isavia mun þurfa að sækja sér fjármagn til þeirrar uppbyggingar sem framundan er. Það er því mikilvægara en nokkru sinni fyrr að afkoma Keflavíkurflugvallar verði áfram nýtt til áframhaldandi fjárfestinga á flugvellinum.

Björn Óli Hauksson: „Við erum stolt af því að vera lykilþátttakandi í uppbyggingu ferðamannageirans á Íslandi. En til þess að hægt verði að tryggja áframhaldandi vöxt ferðaþjónustunnar er nauðsynlegt að við nýtum vel það fé sem verður til á Keflavíkurflugvelli til að fjármagna uppbygginguna sem þörf er á næstu árin. Ef fjármagnið sem myndast í Keflavík verður ekki nýtt þar mun það hægja á farþegaaukningu til og frá og í gegnum Ísland og þar með hægja á áframhaldandi vexti ferðaþjónustunnar sem er mikilvægasta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þjóðarinnar.“