Nýjast á Local Suðurnes

Fyrsti sameiginlegi fundur ungmennaráða Garðs og Sandgerðis

Laugardaginn 6. febrúar sl. funduðu ungmennaráð Garðs og Sandgerðis á bæjarskrifstofunni í Garði, en ráðin eru skipuð ungmennum á aldrinum fjórtán til tuttuguog eins árs. Er þetta fyrsti sameiginlegi fundur ráðanna.

Ungmennin fóru saman yfir upplýsingar um tvær spennandi ráðstefnur sem framundan eru, en sú fyrri er “Skipta raddir ungs fólks máli” sem Evrópa unga fólksins í samstarfi við Samband Íslenskra sveitarfélaga, SAMFÉS, Umboðsmann barna og Ungmennafélag Íslands standa að og sú seinni er á vegum UMFÍ og kallast “Ungt fólk og lýðræði”

Fulltrúum var síðan skipt í þrjá vinnuhópa sem fóru yfir nokkra þætti nátengda ungmennum í Garði og Sandgerði s.s. yngriflokkasamstarf Reynis og Víðis, vinnu ungmennaráðanna, starfi Samsuð, nefndarstarfi bæjarfélaganna o.fl.

Fulltrúi úr hverjum hóp gerði svo grein fyrir niðurstöðum hópanna.

ungmennarad gardur sandgerdi2

Stórt markmið í starfssemi ungmennráða er kennsla í fundarsköpum og lýðræðislegum vinnubrögðum og eru fundirnir því með formelgri hætti, þar sem aðeins er talað úr ræðupúlti og fundarsköpum fylgt eftir í hvívetna.

Fulltrúar æskulýðsmála í bæjarfélögunum, Guðbrandur Stefánsson í Garðinum og Rut Sigurðardóttir í Sandgerði, stýra vinnu ungmennaráða bæjarfélaganna og stefna á sinn hvorn samráðsfundinn í bæjarfélögunum, á hverju ári.

Ungmennin komu með þá hugmynd að stofna Ungmennráð Samsuð eða að Samsuð stæði árlega fyrir sameiginlegum fundi ungmennaráða á Suðurnesjum.  Verður sú hugmynd rædd innan Samsuð, en Samsuð stendur fyrir Samtök félagsmiðstöðva á Suðurnesjum.