Vogar og Grindavík óska eftir ábendingum um fallega garða

Það er merki um haustkomuna þegar sveitarfélögin hefja leitina að fallegustu görðunum, Grindavík og Vogar hafa óskað eftir því við íbúa sveitarfélaganna að þeir sendi inn ábendingar um hvar fallega garða er að finna.
Líkt og undanfari ár verða Umhverfisviðurkenningar Grindavíkurbæjar veittar núna í lok ágúst. Það er Umhverfis- og ferðamálanefnd sem hefur umsjón með þessu verkefni en saga þess nær aftur til ársins 1991. Nefndin óskar eftir ábendingum frá íbúum bæjarins um fallega jafnt sem áhugaverða garða, um fallega og vel heppnaða endurbyggingu á gömlu húsi og einnig ábendingum um snyrtileg fyrirtæki.
Þá verða einnig veitt verðlaun fyrir fallegasta tréð í samvinnu við Skógræktarfélag Grindavíkur og er einnig óskað eftir tilnefningum í þeim flokki.
Að venju mun bæjarstjórn Voga veita viðurkenningu þeim sem skara fram úr í umhverfismálum í bæjarfélaginu, eftir tillögum frá umhverfis- og skipulagsnefnd, segir í tilkynningu frá sveitarfélaginu.
Viðurkenningarnar taka til garðræktar, snyrtilegs og fallegs frágangs mannvirkja (jafnt fyrirtæki og félagasamtök sem heimili) og góðrar umgengni um náttúruna.
Ábendingar um húseignir og garða eða framtak í þágu náttúrunnar, sem vert er að taka til athugunar í ár, eru vel þegnar.
Hægt er að finna nánari upplýsingar um hvernig og hvernær ber að skila tillögum til bæjarstjórnar Voga hér og fyrir upplýsingar varðandi þessi mál í Grindavík má notast við þennan tengil hér.