Handteknar um borð í vél Icelandair – Reyndu að stöðva brottvísun hælisleitanda

Tvær konur voru handteknar í Kötlu, flugvél Icelandair, á Keflavíkurflugvelli eftir að þær reyndu að stöðva brottvísun hælisleitanda sem er um borð. Þetta kemur fram á vef mbl.is, en blaðamaður Morgunblaðsins er um borð í vélinni.
Flugstjóri vélarinnar hafi sagt lögreglumönnum að hann myndi ekki leggja af stað fyrr en öruggt væri að fleiri mótmælendur séu ekki í vélinni. Flugfreyjur hafi svo gengið um og spurt farþega hvort þeir væru sáttir við að vélin legði af stað. Mótmæli hafi verið fyrir utan flugstöðina í morgun vegna málefna hælisleitenda.
Samkvæmt lýsingu blaðamanns öskruðu konurnar yfir vélina og kröfðust þess að aðrir farþegar tækju þátt í að stöðva för vélarinnar. Lögreglumenn hafi haldið annarri konunni niðri í gólfinu. Þær hafi svo báðar verið handjárnaðar efst í landgöngustiganum.
Vélin er nú á leið í loftið með hælisleitandann um borð. Hann sat aftast í vélinni og hafði sig ekki frammi á meðan uppákoman stóð yfir, að sögn blaðamanns mbl.is.