Nýjast á Local Suðurnes

Auka öryggisgæslu á Ásbrú vegna hælisleitenda – “Hefur ekkert með Reykjanesbæ að gera”

Fjöldi hælisleitenda býr á á Ásbrú

Öflugt myndavélakerfi hefur verið sett upp á gistiheimili á Ásbrú í Reykjanesbæ, sem hýsir hælisleitendur á vegum Útlendingastofnunnar, auk þess sem öryggisvörður vaktar húsnæðið allan sólarhringinn. Útlendingastofnun flutti á annan tug hælisleitenda á gistiheimilið á dögunum þar sem húsnæði sem stofnunin hafði til afnota á höfuðborgarsvæðinu er óíbúðarhæft.

Uppsetning öryggiskerfa og sólahringsgæsla mun vera stöðluð aðgerð í byggingum sem hýsa hælisleitendur á vegum Útlendingastofnunnar og er meðal annars sett upp í þeim tilgangi að meina óviðkomandi aðilum aðgengi að húsnæði hælisleitenda, eftir því sem Suðurnes.net kemst næst, en ekki bárust svör frá Útlendingastofnun við fyrirspurnum fyrir birtingu fréttarinnar.

“Hefur ekkert með Reykjanesbæ að gera”

Hælisleitendurnir sem fluttir voru á Ásbrú eru þar alfarið á vegum Útlendingastofnunnar og sér stofnunin um þjónustu við þá og ber kostnað af veru þeirra á svæðinu. Um 50 flóttamenn, mest fjölskyldur, eru í þjónustu á Suðurnesjum á vegum Reykjanesbæjar samkvæmt samningi við Útlendingastofnun, að sögn Friðjóns Einarssonar, formanns bæjarráðs Reykjanebæjar, en hann tók þátt í umræðum um málefni hælisleitenda og flóttafólks í lokuðum hópi íbúa Reykjanesbæjar á Facebook.

“Reykjanesbær hefur sagt hingað og ekki lengra í þessu máli. Um 50 hælisleitendur eru og hafa verið á vegum sveitarfélagsins. Mest fjölskyldur. Það sem núna bætist við hefur ekkert með Reykjanesbæ að gera, ríkið er sjálft að leigja íbuðir/herbergi á Ásbrú.” Segir Friðjón meðal annars í umræðunum.